Ventisquero vínsmakk.

Þegar ég fjallaði um vín mánaðarins í febrúar 2020, tók ég fram að mér fyndist Ventisquero línan sú besta  sem ég hef smakkað frá Chile í mörg ár.  Í þessari línu eru öll vínin í mjög góðum gæðum miðað við verð (þ.e. verð frá 2.000-3.000kr.).

 Já það eru til dýrari og jafnvel betri vín frá öðrum aðilum, en þessir sömu aðilar eru líka búnir að leggja nafnið sitt við ódýr og gæðalítil vín.  Sem sagt breiddin er svo mikil að undir einu nafni getur þú fengið allt frá hágæða rándýru víni niður í ódýrasta borðvín sem á varla skilið að vera til sölu í Á.T.V.R..  Þetta vil ég meina að sé ein (af mörgum) ástæðum fyrir því að áströlsk vín hröpuðu í sölu alls staðar í heiminum, vínframleiðendur voru og eru að nota nafnið á betra víni á ódýra vínið þar sem gæðin eru ekkert í líkingu við það sem neytendur eru vanir, og þar af leiðandi eru þeir að missa traust og trú neytenda.  Eru framleiðendur Ventisquero með ódýra línu? Alveg örruglega og samkvæmt vefsíðunni þeirra heitir það Kalfu, en að minnsta kosti eru þeir að láta ódýru vínin standa undir öðru nafni.

Einnig tók ég eftir því að öll vínin voru sett í Á.T.V.R. á sama tíma sem er mjög sjaldgæft.  Það gefur auga leið að eitthvert vín dettur út, og fróðlegt verður að sjá hvaða vín heldur velli og hvaða vín dettur út.

Til að forðast misskilning: Umboðsaðili Ventisquero (UVA ehf.) er ekki að kosta þessa grein að neinu leiti nema að gefa mér vínin til að smakka ( sjá útskýringu hér).

Eftir nokkra umhugsun og fyrirspurnir hef ég ákveðið að leyfa þeim umboðsaðilum sem vilja nota „Vínsmakkarinn mælir með“ merki á vín sem eru valin sem vín mánaðarins og vín sem er skýrt tekið fram „Vínsmakkarinn mælir með“ í greinum um vínin. Í þessu tilfelli urðu 3 vín fyrir valinu, eitt vín mánaðarins og tvö vín sem verður fjallað um í greininni.

Og nú er komið að víninu sjálfu:

Ventisquero Reserva Carmenere 2017

Valle de Centrale, Colchagua Valley verð 2.489 kr.. Carmenere þrúgan hefur átt svolítið erfitt uppdráttar hér heima í nokkur ár, hún var í tísku í nokkur ár eftir að framleiðendur í Chile uppgötvuðu að vínþrúgan var til í Chile (hún var flokkuð með Merlot fyrst um sinn) og þeir byrjuðu að framleiða þetta sér, þó það verði alltaf smá Merlot í blönduninni. Mín skoðun er sú að það eru grösug einkenni í Carmenere sem fellur ekki alveg í kramið hjá Íslendingum almennt, en vínið er mjög gott. Dökk ber, eik og þurrleiki er mest áberandi í bragði og eftirbragðið í þessu víni og það myndi henta vel með góðu nauti eða lambahrygg. Ekki geyma vínið, bara njóta núna.

Ventisquero Grey Pinot Noir Single Block 2015

Aconcagua, Leyda verð 2.997 kr.. Ég reyni almennt að forðast Pinot Noir frá Suður Ameríku, yfirleitt geta þau verið svolítið sultukennd og vantar ferskleikann, þess vegna var gaman að smakka Pinot Noir sem minnti mig á  gott Oregon Pinot Noir.  Sem sagt góð jarðaberja, sveppa, eikar og sveitar einkenni. Eftirbragðið er tannínríkt og langt. Vínið smell passar með fuglakjöti.

Ventisquero Reserva Chardonnay 2017

Aconcagua, Valle de Casablanca verð 2.489 kr..  Eini fulltrúinn í hvítvíni, sýruríkt vín með grænum eplum, ananas og  sítrónu til að byrja með, og svo kemur smjör og eikar tónn. Frekar langt og sýruríkt eftirbragð. Óþarfi að geyma vínið, það er tilbúið að drekka núna. Vínið passar vel með ljósu fuglakjöti og skötusel finnst mér.

Ventisquero Reserva Merlot 2017.

Valle de Centrale, Vin de Maipo verð 2.489 kr.. Nú erum við að tala mitt tungamál! Ég hef alltaf verið mjög hrifin af góðu Merlot og þetta er ekta svoleiðis. Safaríkt vín með plómu, kirsuberja, og súkkulaði einkenni. Meiri ávaxta einkenni og minna tannín finnst mér. Eftirbragðið er meðal langt, bragðmikið og safaríkt með dökku kirsuberja bragði. Gott núna og á eftir að þroskast í 2 ár í viðbót. Tilvalið með fitulitlu nauti og lambi.

Ventisquero Reserva Cabernet Sauvignon 2016.

Valle Central, Maipo Valley verð 2.489 kr.. Frekar kröftugt vín með sterkan keim af papriku, dökku súkkulaði, tóbaki, sólberjum og svörtum pipar. Vínið er tannínríkt og bragðgott með meðal löngu eftirbragði. Frábært með ribeye, t-bein eða feitu lambakjöti. Tilbúið að drekka núna.

Ventisquero Reserva Pinot Noir 2017

Aconcagua, Valle de Casablanca verð 2.489 kr.. Litli bróðir Grey Pinot Noir, létt og ferskt vín með jarðaberja, hindberja og smá villisveppa bragði. Eftirbragðið er milt og þægilegt og vínið hentar vel með alls konar bragðmildum ostum og léttum kjúklinga réttum, tilbúið að drekka núna.

ATH: Vín mánaðarins febrúar 2020

Ventisquero Grey Cabernet Sauvignon Single Block 2014 

Valle de Central, Valle del Maipo verð: 2.997 kr..Er hreint út sagt frábært vín! Bragðmikið, þykkt með grænni papriku, dökku súkkulaði, kaffi, vanillu, eikar bragði, og einnig er gott jafnvægi á milli ávaxta og tanníns. Eftirbragðið er langt með góðum krydd keim og örlitlum áfengis keim í bakgrunni. Óþarfi er að geyma vínið enda er tilvalið að drekka það núna, en það myndi samt njóta sín aðeins meira eftir eitt til tvö ár í geymslu í viðbót.

Vínsmakkarinn mælir með:

Ventisquero Grey Merlot Single Block 2014 

Valle de Colchagua Alpalta vineyard verð 2.997 kr.. Þvílíkt skrímsli! Hellingur af ávöxtum eins og plómur og dökk kirsuber, svo kemur súkkulaði, jarðvegur, eik og kaffi með slatta af vanillu. Sem betur fer er nóg af tannín til að halda jafnvægi í lagi. Eftirbragðið er langt og gott. Frábært með nauti og lambi og vínið sem ég á eftir að drekka mikið af í sumar! Alveg tilbúið núna en á 2-3 góð ár eftir til að þroskast.

Vínsmakkarinn mælir með:

Ventisquero Reserva Syrah 2018.

Valle de Central, Valle de Maipo 2.489 kr.. Yngsta vínið hjá þeim í sölu hér heima og minnir svolítið á vín frá norður Rhone, þétt vín með bláber, brómber, súkkulaði, eik, tóbak og svartan pipar í bragði og lykt.  Alkohól og brómber eru mest áberandi í eftirbragðinu. Hörku gott vín á góðu verði.  Ég mæli með að umhella því aðeins fyrir matinn til að láta vínið þroskast aðeins meir. Auðvitað smell passar þetta vín með þungu kjöti og ostum. Má geyma í 3-4 ár.

Þessi færsla var birt í Nýlega smakkað, Uncategorized, Vín mánaðarins, Vínsmakkarinn mælir með og merkt sem , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply