Colombia Crest Cabernet Sauvignon 2016
Columbia Valley, Washington U.S.A.
Gamall vinur heimsóttur á ný.
Fyrir stuttu síðan hélt ég smá matarboð heima fyrir góðan vina hóp. Ákveðið var að smakka langdýrasta og sennilega með þeim allra besta vín sem ég hef nokkurn tíma átt (nánar verður fjallað um það síðar). En ég vissi að það væri ekki nóg vín handa hópnum svo ég ákvað að fara í ríkið til að finna vín sem myndi vera „drykkjarhæft“ og á skynsamlegu verði, til að bjóða upp á á eftir dýra víninu.
Vínið þurfti að passa vel með steikinni, gæðin urðu að vera nógu góð svo að gestirnir mínir yrðu ekki fyrir vonbrigðum, þó vínið væri alls ekki í sama gæðaflokki og dýra vínið, það varð að smell passa með matnum og þá væru allir glaðir. Einnig ákvað ég að vínið varð að vera bandarískt Cabernet Sauvignon alveg eins og dýra vínið.
Í leit minni í ríkinu rakst ég á gamlan vin, Columbia Crest Grand Estates Cabenet Sauvignon. Það skemmtilegasta við að smakka vín frá sama framleiðanda er að sjá hvernig vínið og framleiðandinn hafa breyst í gegnum árin. Sumir framleiðendur hafa staðist tímans tönn og haldið gæðum, og verði miðað við gæði án þess að taka feilspor, aðrir hafa valdið vonbrigðum og hafa dalað í gæðum en haldið verðinu háu, eða ennþá verra, hækkað töluvert í verði en dalað í gæðum.
Columbia Crest hef ég smakkað af og til í 25 ár og aldrei hefur það valdið vonbrigðum, frá fyrsta skiptinu sem ég smakkaði vínið þeirra sem var þá flutt inn af Halldóri Marteinssyni (ljúfur maður á allan hátt) í þá daga alveg til dagsins í dag hafa gæðin haldið sér.
Columbia Crest Grand Estates Cab. Sauvignon er bragðmikið vín með sterkan keim af sólberjum, papriku og svörtum plómum. Einnig má finna vanillu, kókos, súkkulaði, jarðveg og villisveppi í bragðinu og eftirbragði. Eftirbragðið er langt og gott með mikið af tannín. Árgangurinn er 2016 sem er í eldri kantinum fyrir vín í þessum verðflokki og flaskan var merkt fyrrverandi innflytjanda vínsins Bakkus. Sem þýðir að annaðhvort hreyfist þetta hægt eða keypt var of mikið magn á sínum tíma og það þarf að klára birgðirnar áður en nýr árgangur kemur inn. Hver sem áðstæðan er skiptir engu máli, við neytendur erum að njóta góðs af. Vínið hafði tíma til að þroskast og er fullkomið núna en má geyma í 2-3 ár í viðbót.
Bragðmikil og vel krydduð nautalund var borðuð með þessu víni núna og og smell passaði með. Verðið er skv. vefsíðu Á.T.V.R. 2.999 kr. flaskan, þó að mér finnist eins og ég hafi borgað 3.099 kr. umboðsaðili er Karl K. Karlsson ehf. eða Kalli K eins er það er kallað í dag.