Búdapest í Ungverjalandi er að verða frekar vinsæll ferðamannastaður fyrir Íslendinga, og ekki að ástæðulausu. Borgin er ódýr á íslenskan mælikvarða á allan hátt, varðandi flug, gistingu, mat, vín og alles. Og yfir vetrartímann er Búdapest enn ódýrari en á sumrin.
Það er margt að skoða í Búdapest, meira að segja að vetri til, en samt að vetrarlagi leitar maður að einhverju til að gera innandyra meira en að sumri til. Konan mín var svo séð og fór að leita eftir vínsmakki til að fara í. Allir helstu vínbúgarðar eru of langt frá og það tæki dagsferð að skoða þá, og úr því að við vorum ekki nema tvo daga var það ekki raunhæft. Í staðinn fann konan mín tilvalið vínsmakk í hjarta Búdapest. Fyrir valinu varð Tasting table, Hungarian wine, cheese and charcuterie tasting. Hægt er að skoða það sem er í boði í gegnum https://tastehungary.com/tasting-table-budapest/
Áður en ég fer að lýsa vínunum vil ég benda á nokkur atriði.
1. Mér finnst ungversk vín gríðarlega vanmetin. Fyrir kommúnista tímabilið stóð ekkert sætvín jafnfætis Tokaj nema þau allra bestu í Sauternes í Frakklandi. Egri Bikaver stóð fyllilega fyrir sínu á allan hátt og var samkeppnishæft í gæðum, borið saman við bestu rauðvín í Evrópu. En því miður tókst kommúnistum að eyðileggja hundraða ára hefð og virðingu í vínheiminum á ótrúglega skömmum tíma.
2. Frá því að kommúnistinn og múrinn féllu, hafa gæðin í vínum þaðan aukist á met hraða. Það sem Ungverjar hafa gert við rauðvíns- og tokaj framleiðslu sína síðan er aðdáunarvert! Ekki versnar það þegar talað er um hversu vel þeim hefur tekist að gera Merlot og Cabernet Franc að frábæru víni! Eina sem mér finnst að mætti bæta er Pinot Noir og freyðivíns framleiðslan. Þeir eiga ennþá langt í land þar finnst mér.
3. Ef þið eruð í Ungverjalandi, ekki þá eyða tíma og peningum í innflutt vín, ungversku vínin eru hlægilega ódýr, og til hvers að kaupa miðlungs vín frá Chile þegar þú getur keypt frábært vín, helmingi ódýrara sem er framleitt í Ungverjalandi!
Og nú förum við í vínsmakk!

Við tókum leigubíl að lítilli hliðargötu sem er í miðbæ Pest hluta Búdapest. Þegar bíllinn stoppaði vorum við viss um að hann hefði farið framhjá enda sáum við ekki neitt, allavega ekki fyrr en við litum niður tröppurnar og sáum litla búð með fullt af víni. Okkur til ánægju var þetta staðurinn sem vínsmakkið var haldið. Þegar inn var komið var þetta eins og að labba inn í gamlan helli með fullt af víni.

Það tók ung kona á móti okkur að nafni Lilla, sem átti eftir að fara í gegnum vínsmakkið með okkur. Við þurftum að bíða í smá stund eftir öðru pari sem kom svo ekki, og á endunum vorum við bara tvö. Við fengum strax einn stóran osta- og kjötbakka á mann og áttum upphaflega að smakka fimm vín. Eins og gerist alltaf í svona vínsmakki voru allir feimnir til að byrja með og lítið spjallað, en eftir fyrsta glasið fór tungan af stað og við sáum það að Lilla var bæði áhugasöm um vínin, og með mikla þekkingu á ungverskum vínum, og hafði gaman af að ræða um þau sérstaklega. Þegar hún sá áhuga okkar á víni enduðum við á að smakka aðeins öðruvísi vín en upphaflega var gert ráð fyrir. Hér fyrir neðan eru vínin sem við smökkuðum og mitt álit.

Botj Winery Egri Csillag 2018 frá Eger svæði var annað af tveimur virkilega góðum ungverskum hvítvínum sem ég smakkaði (hitt kemur frá Figula winery í Balaton). Þurrt, sýruríkt vín með góðu elderflower, ferskju, vínberjum (sjaldgæft nema í muscat berjum) og þokkalega gott eftirbragð.

Fuleyky winery Furmint 2014, Tokaj svæði, þykkt olíukennt oxiderað og frekar rammt vín. Að mínu mati á þessi þrúga eingöngu að vera notuð í tokaj sætvín, ég hef aldrei smakkað gott þurrt hvítvín úr þessari þrúgu. Eina vínið sem ég var fyrir vonbrigðum með í 7 daga ferð.

Hueman Winery RedY 2018, Eillany svæði. Góð leið til að byrja rauðvíns smakk létt, vel kryddað, ávaxtaríkt og þægilegt vín. Meðal langt eftirbragð.

Kovacs Nimrod Winery Egri Bikaver 2016, Eger svæði. Þetta vín var með þeim yngstu Egri sem ég smakkaði og ennþá svolítið hrátt, en stórkostlegt engu að síður! Dökk kirsuber, svartur pipar og dökkt súkkulaði voru mest áberandi og svo kom kaffi og kanill. Þetta verður frábært vín eftir 3-4 ár!!
Það sem var smakkað aukalega: Vegna áhuga okkar (og trúlega líka rólegur dagur) fengum við að smakka vín sem er almennt ekki í boði í svona smakki (nema kannski ef greitt er auka). Þau voru eftirfarandi:

Nagy-somlói Juhfark 2018, somlo svæði. Án efa furðulegasta hvítvínið sem var smakkað í ferðinni, en frábært engu að síður, þungt, þykkt með smjör, krydd, rúsínu og ommelettu bragði! Langt og bragðmikð eftirbragð. Þetta er sjaldgæf hvítvíns þrúga og gaman að geta sagt að maður hafi smakkað hana.

St. Andrea Hangacs Dulo Egri Bikaver 2017, Eger svæði. VÁÁÁ Þvílíkt skrímsli! Ég smakkaði ansi mikið af Egri Bikaver úti en þetta var án efa með þeim bestu, þungt bragðmikið með kaffi, kanil, eik, dökkum kirsuberjum, smá skógarberjum og reyk í bakgrunni! Frábært núna en má geyma í 10 ár. Enda er St. Andrea einn allra besti framleiðandi í Ungverjalandi.

Erzsebet Pince Tokaj Forditas 2013, (smakkað í staðinn fyrir Aszu 5 puttonyos). Þetta er mjög sérstakt sætt vín, alls ekki betra en alls ekki verra en 5 puttonyos. Þetta vín kemur úr seinni pressun af Aszu (furmint og Harslevelu) vínþrúgum og gefur talsvert minna af sér í framleiðslu. Það er mikið af hunangi, brúnum sykri, sítrónu brjóstsykri og steinefnum í bragði. Þó að þetta sé sætvín er þetta ekki nærri eins sætt og 5 puttonyos og þar af leiðandi auðveldara að drekka.
Smá ráð á meðan þú ert í Búdapest. Náðu þér í appið Bolt í símann þinn, þetta app getur sparað þér mikinn pening og fyrirhöfn. Þú biður um bíl, setur inn heimilisfang þangað sem þú ætlar, þér er sagt hvenær bíllinn kemur og hvað það mun kosta. Þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af „sjóræningja“ bílum sem ofrukka þig.