Það eru margir sem velta því fyrir sér hvenær og jafnvel hvort á að umhella víni. Hér eru nokkrar ábendingar um hvenær er best að umhella víni og af hverju.
Gamalt vín
Oftar en ekki þegar vín eldist, safnast það sem er kallað botnfall í flöskuna. Þó að botnfallið skaði ekkert þá er ekki sérstaklega gaman að drekka það, og til að aðskilja vínið frá botnfallinu er best að láta flöskuna standa upprétta í sólarhring og svo umhella hægt og rólega í karöfluna um það bil klukkutíma áður en ætlunin er að drekka það. Eldri vín eru oft mjög viðkvæm og hafa ekki gott af því að blandast of mikið við loftið. Þess vegna er best að halla karöfluna um 45° og hella hægt og rólega svo vínið leki rólega niður, hella þangað til sést í botnfallið við háls flöskunnar.
Ungt, meðaldýrt og dýrt vín (1.800 kr. og upp úr)
Þegar ætlunin er að drekka vín sem væri jafnvel betra eftir 1-10 ár, er auðvelt að bæta um það bil árs þroska við vínið með því að umhella því. Mælt er með að opna flöskuna og bókstaflega sturta víninu frekar hratt ofan í karöfluna um klukkutíma áður en það verður drukkið. Oftast er ekki botnfall í ungu víni svo tilgangurinn er að fá eins mikið loft í vínið og hægt er til þess að flýta fyrir þroska.
Ódýrt vín (1.700 kr. eða minna)
Nánast öll ódýr vín sem eru flutt til landsins eru framleidd til að drekka strax og þarfnast ekki sérstaklega umhellingar. Slepptu umhellingu og njóttu vínsins eins og það er.