English
Það er loksins komið vín fyrir ágúst mánuð, og nú ætlum við að fara til suður Frakklands í leit að einhverju ævintýralega góðu! Þó að suður Frakkland sé ekki eins vel þekkt og Bordeaux eða Burgúndí þýðir það ekki að vínin þaðan séu ekki hágæða. Af og frá, það er í raun ótrúlegt hversu mörg góð vín koma þaðan sem þarf ekki að borga fyrir dýrum dómi. Eitt svoleiðis vín er frá Domaine Lafage í Rousillon svæðinu. Virkilega vel vandað vín á góðu verði.
Lafage Narassa 2019, Rousillon, Frakkland.
Þetta vín er blandað af 70% Grenache og 30% Syrah, sem er í sjálfu sér ekki óalgeng blanda á þessu svæði. Vínið er frekar hátt í alkóhóli með 15% sem kemur vel fram í nefinu. Krydd, jarðvegur og svört ber eru einnig mjög áberandi í nefinu. Bragðið er þungt með svörtum berjum, pipar og jurtum, og alkóhól er fremst með góðu jafnvægi á milli tanníns og ávaxta í lokin. Eftirbragðið svíður pínu vegna hás alkóhóls magns en er langt og gott. Tilvalið vín með alls konar kjötréttum. Verðið er mjög gott, 3.489 kr.