Georgia on my mind.

Þegar þetta fræga lag var samið efast ég um að hinn heimsfrægi Hoagy Carmichael hafi verið að hugsa um landið Georgiu sem þá var orðið gallhart kommúnista ríki. En af óskiljanlegum ástæðum, þegar ég smakkaði vínin gat ég ekki losnað við lagið úr hausnum á mér!

Georgia er eins og svo mörg fyrrverandi austantjalds lönd sem hafa öðlast meira frelsi á undanförnum árum, hefur glímt við frekar leiðinlegt orðspor varðandi vínræktun sína. Fyrir 25 árum var það skiljanlegt, hreinlæti og nútíma tækni var ekki til á svæðum eins og í Moldovu, Georgiu eða Króatíu. Vínið var ræktað og gerjað á gamla mátann sem var nógu gott á heima markaði en ekki alveg nógu gott gæðalega séð fyrir erlenda markaðinn. En nú er öldin önnur og gæðalega séð hafa vínin frá þessum löndum batnað til muna en án þess að missa þjóðar einkenni vínsins.

Georgia er gott dæmi um land sem hefur ekki kastað út sínum heima ræktuðu vínþrúgum til þess að rækta Cabernet Sauvignon, Chardonnay, Merlot eða aðrar vínþrúgur bara til að reyna að ná athygli á heimsmarkaði.  Heldur eru vínframleiðendur að nota nútíma ræktunar aðferðir til að ná sem mestu og því besta úr vínþrúgum sem þau þekkja. Ég sem vín áhugamaður fagna því að sjá og smakka gæða vín sem hafa karakter frá heimalandi sínu. Bara vegna þess að vínið er ekki úr Cabernet, Merlot eða Chardonnay þýðir ekki að það sé ekki gott, af og frá.  Það veitir ekki af að drekka gott vín sem er aðeins öðruvísi en öll stórmarkaðs vínin.

Hér fyrir neðan eru fjögur vín frá Georgiu sem ég hef smakkað í ár og tel alveg þess virði að prófa.

Hvítvín:

Koncho Kisi semi-sweet 2020.

Það tók mig smá tíma að átta mig á bragðinu og lyktinni af þessu víni.  Þó þetta sé ekki þurrt vín er þetta ekki mjög sætt heldur, vínið minnir mig á Pinot Grigio vínþrúguna sem er yfirleitt ekki of þurr og ekki of sæt, og oftast gott matarvín. Vínið er frekar lokað í nefinu með smávegis af peru og hráum sykri. Bragðið er meðal sætt (enda heitir vínið semi-sweet) með melónum, peru, gamla bismark brjóstsykrinum og smá möndlu bragði. Eftirbragðið er stutt en gott, tilvalið með creme brulee eða ávaxta búðing. Verðið er gott 2.999 kr.

Tbvilvino Rkatsiteli 2020.

Ótrúlegt en satt, það er mjög sjaldan sem hægt er að finna grænvínberja lykt og bragð í hvítvíni, reyndar finn ég það yfirleitt ekki nema í Múskat víni. Þess vegna kom þetta vín svo á óvart. Þurrleiki og sýra var til staðar í víninu og vínber, perur og lime voru mest áberandi í lykt og bragði. Ég get alveg séð fyrir mér að sitja úti á svölum í sólinni (ef hún kemur nokkurn tíma aftur til landsins) og sötra þetta vín. Ekki spillir verðið fyrir,  á 2.999 kr.

 

Rauðvín:

Koncho Mukuzani dry red 2019.

Nú erum við að tala saman. Þurrt vín með kanil, oregano og léttu rauðu karrí í nefinu. Bragðið er þurrt en samt ekki of tannínríkt með góð krydd, skógarberja og eikar einkenni. Eftirbragðið er meðal langt og gott. Tilvalið með krydduðum kjötréttum og mjög sanngjarnt verð 3.399 kr.

 

 

 

 

Marani Saperavi Traditional Qvevri wine 2020

Mér finnst nauðsynlegt að fara út fyrir ramman þegar ég fæ tækifæri til þess. Áður en ég smakkaði þetta vín hafði ég ekki hugmynd um hvað í ósköpunum þetta væri.  Einnig finnst mér mikilvægt að gamlar og rótgrónar víngerða aðferðir geti dafnað í nútímanum. En það sem skiptir mestu máli er, er þetta gott vín? Svarið er já, þetta er gott, reyndar mjög gott. Vínið er frekar dökkt og þykkt á litinn, og lyktin gefur til kynna bragðmikið vín sem er vel kryddað. Bragðið er frekar sterkt en ferskt til að byrja með, með mikið krydd, sólber, myntu og frekar tannínríkt. Eftirbragðið er langt og tannínríkt og sýnir mér að þetta vín væri sennilega betra eftir 5 ár eða svo. Ekta vín með kjötréttum og jafnvel kjöti í marinara sósa. Verðið er eins og gengur og gerist nú til dags, 3.481 kr.

Þessi færsla var birt undir Nýlega smakkað, Vínfræði. Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply