Vín með páskamatnum.

Það er vægt til orða tekið að segja að við lifum á mjög erfiðum og sérstökum tímum. Páskarnir verða í ár eins og undanfarin ár, engin breyting þar, en margt annað verður ekki eins í ár og undanfarin ár.

Það verða fáir nema allra nánustu í heimsókn. Sumarbústaður og heitur pottur er ekki  í boði í ár (munið við hlýðum Víði!) og börnin eiga sennilega eftir að krefjast meiri athygli en venjulega, enda mun minna að gera fyrir þau.  Eitt sem verður eins í ár er að við ætlum að kaupa og elda frábæran mat yfir páskahátíðina. Fólk er með fjölbreyttan mat um páskana, en það er þrennt sem stendur upp úr, kalkúnn eða lambalæri og auðvitað megum við ekki gleyma hnetusteikinni handa vegan vinum okkar.

Hér fyrir neðan eru nokkrar tillögur að víni með páskamatnum:

Kalkúnn er orðinn ansi vinsæll hjá mörgum sem hátíðarmatur, ástæðan er einföld, hann er á frekar góðu verði miðað við magn, kjötið er frekar bragðlítið, sem þýðir að fólk í raun getur kryddað fuglinn eins og hentar. Hann er ekki of þungur í maga, og auðvitað lítur kalkúnn tignarlega út á borðinu þegar hann er borinn fram. Þegar leitað er eftir víni með svona tignarlegum fugli viljum við hafa vín sem er ekki of kröftugt, því það myndi valta yfir fínlegt fuglakjötið og þess vegna er best að velja gott Pinot Noir eða spænskt Crianza.

Gott dæmi um góðan spánverja með kalkún er Siglo Crianza Edicion Oro frá Rioja á Spáni  á 2.554 kr.. Létt, meðalþurrt vín og þægilegt með bragði af kirsuberjum, eik, kaffi og vanillu  og sama má segja um lyktina. Eftirbragðið kemur skemmtilega á óvart og er langt og gott ristað brauðs bragð. Alveg tilvalið með fulginum í brúnni sósu og með brúnum kartöflum.

Varðandi Pinot Noir mæli ég með einu af mínum uppáhalds vínum sem er Albert Bichot Secret de Famille Pinot Noir 2017 frá Burgúnd í Frakkalandi á 3.589 kr.. Enn og aftur mjög fínlegt vín með mikið af jarðaberjum, villisveppum og hindberjum. Mjög gott Pinot Noir sem er tilbúið núna.    

Lambalæri er orðið þjóðarréttur íslendinga yfir páskana, en það er oftast eldað í eigin safa í nokkra tíma og verður fyrir vikið hörku bragðmikið.  Bragðmikið kjöt krefst kröftugs víns og eitt af uppáhalds vínunum mínum hentar lambakjöti rosalega vel.

Ventisquero Grey Merlot Single Block 2014, Valle de Colchagua Alpalta vineyard verð 2.997 kr.. Þvílíkt skrímsli! Hellingur af ávöxtum eins og plómur og dökk kirsuber, svo kemur súkkulaði, jarðvegur, eik og kaffi með slatta af vanillu. Sem betur fer er nóg af tannín til að halda jafnvægi í lagi. Eftirbragðið er langt og gott.

Önnur vín sem ég hef talað um síðan í október í fyrra er Augment Cabernet Sauvignon, Barrel Aged in Bourbon, 2016, Kalifornía, U.S.A. 2.999 kr. Þú færð bragðmikið vín með mikið af sólberjum, dökku súkkulaði, brómberja sultu og vanillu, og með kaffi og ristað brauð í bakgrunni. Vínið er tilbúið núna og þó það sé óhætt að geyma það í 1-2 ár er engin ástæða til að geyma það lengur.

Fyrir vegan vini okkar sem eru að elda hnetusteik er mun meira í boði en áður fyrr sem er gott og tímabært. Því miður er ég ekki alveg nógu vel upplýstur varðandi vegan mat, en að ég best veit virðist hnetusteik ennþá vera helsti hátíðarmaturinn.  Að sjálfsögðu eiga að vera 100% vegan vín í boði með matnum.

I þessu tilfelli finnst mér tilvalið að velja eitt af betri vegan vínum sem ég hef smakkað, Magister Bibendi Graciano Reserva 2012, 3.690 kr.. Þurrt, bragðmikið vín með mikinn keim af hindberjum, rifsberjum, kaffi, vanillu og eik.  Eftirbragðið er langt, tannínríkt og gott. Þetta vín er tilbúið að njóta núna.  

Gleðilega páska og munið að velja gott vín og njóta þess í hófi, fjölskyldan á að vera í forgangi á þessum erfiðu tímum.   

Þessi færsla var birt í Uncategorized, Vínfræði, Vínsmakkarinn mælir með og merkt sem , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply