Hvernig eru vínin dæmd á Smakkarinn.com?

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvernig ég dæmi vínin, og af hverju ég er ekki með stjörnugjöf eða annars konar einkunnagjöf.

Ég hef einnig verið spurður hvort ég kaupi vínin sjálfur eða fá vínin frítt. Einnig hef ég verið sakaður um að „auglýsa“ vín fyrir umboðsaðila. Svo ég hef ákveðið að reyna að útskýra þetta allt saman og leyfa fólki að ákveða sjálft hvort það er sammála eða ekki.

Af hverju er Vínsmakkarinn ekki með einkunnagjöf? 

Fyrst af öllu, að fyrir hverja flösku sem ratar á síðuna, eru 4-5 flöskur af víni sem ég tel ekki nógu gott til að fjalla um. Ef ég ætla að gefa háa einkunn fyrir gott vín þá finnst mér ég líka verða að gefa lága einkunn og jafnvel fjalla um vín sem mér líkar ekki. Það finnst mér ekki ákjósanlegt, smekkur manna er misjafn og hver er ég til að segja að uppáhalds vínið þitt er ekki nógu gott?? Ég vil fjalla um vín sem mér finnst gott og ég er sannfærður um að aðrir myndu vera ánægð/ir með líka. Einnig finnst mér skipta máli að kaupin séu góð, þ.e. að verð og gæði fari saman. Ef vínið sker sig sérstaklega úr þá verður það vín mánaðarins eða „Vínsmakkarinn mælir með“. 

Kaupi ég vínin sjálfur?

Almennt ekki, en oft já, (t.d. vín desember mánaðar var keypt í Á.T.V.R.). En ég veit líka að 99% af þeim vínum sem er fjallað um í tímaritum eða á vefsíðum fást gefins frá umboðsaðilum. Þetta er ekki leyndarmál og ekkert að því finnst mér, alveg eins og flestur matur sem er fjallað um í sjónvarpi eða annars staðar fæst gefins líka. Umboðsaðilar vilja koma sínu á framfæri, en ég set skilyrði um hvenær og jafnvel hvort ég fjalla um vínin. Ég fjalla ekki um vín sem mér finnst ekki nógu gott, sem hefur gert mig frekar óvinsælan hjá sumum umboðsaðilum.

Er ég að auglýsa vín?

Já og nei.  Ég fæ ekki greitt fyrir að fjalla um vín, það er enginn umboðsaðili að auglýsa á vefsíðunni minni. Ég er að eyða ca. 6.000 kr. á mánuði í auglýsingar á Facebook úr mínum eigin vasa til að auglýsa nýjastu vín greinarnar. Ég fæ vín til að smakka frá 4 umboðsaðilum, hvað þeir gera með mína umfjöllun um þeirra vín er þeirra mál, þeim er frjálst að nota þann texta. Það eru fleiri umboðsaðilar sem hafa beðið mig að smakka þeirra vín líka, og það er ekki ólíklegt að ég bæti við. Stærstu umboðsaðilarnir láta mig alveg í friði, einfaldlega vegna þess að annaðhvort líkar þeim ekki við mig eða finnst ég of áhrifalítill til að eyða tíma og víni í. Hvort það verði auglýsingar á vefsíðunni seinna meir verður að koma í ljós, ég hef hreinlega ekki hugsað um það ennþá. 

Hvað er framundan?

Á nýju ári verða gerðar nokkrar breytingar á síðunni og hún verður meira áberandi.

Umboðsaðilar hafa beðið mig um leyfi til að fá að merkja flöskurnar sínar með„Vínsmakkarinn mælir með“ á þau vín sem hafa fengið góða dóma eða verið valin vín mánaðarins. Mér finnst líklegt að af því verði.    

Umfjöllun um bjór verður breytt. Ég er hreinlega ekki dómbær til að fjalla um Craft bjór. Ég er sáttur við minn Heineken eða Tuborg Gull og hef ekki nógan áhuga eða þekkingu á hinu til að fjalla um það. Ef þú veist um einhvern sem langar að fjalla um bjór endilega hafið samband.

Kokteilum verður gefið meira pláss og þeir fá meiri umfjöllun, kannski skroppið á kokteil keppnir og fjallað um kokteil uppskriftir. Það eru skemmtilegir hlutir að gerast í kokteil heiminum.

Vonandi svarar þessi grein sem flestum athugasemdum. Ykkur er alltaf velkomið að senda mér fyrirspurn eða e-mail á smakkarinn@gmail.com

Stefán Guðjónsson
Þessi færsla var birt í Fræðsluefni, Uncategorized og merkt sem , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply