Nýtt ár er handan við hornið og eins og venjulega viljum við fagna því með því að skála á miðnætti með freyðandi víni. Af því tilefni ætla ég að mæla með nokkrum af mínum uppáhalds freyðandi vínum,
allt frá ódýrari vínum fyrir þá sem eru að leita að góðum kaupum, upp í dýr og flott kampavín fyrir þá sem vilja aðeins það besta. Öll eiga vínin það sameiginlegt að vera að mínu mati hverrar einustu krónu virði. Ýttu á nafn vínsins til að sjá verðið og hvar vínið fæst. Og við ætlum að byrja með:
Rich Rosé Seco eru ein af bestu kaupum í Á.T.V.R. í smáum einingum finnst mér (í þessu tilfelli dós, 20 cl). Rosé er með skemmilegan jarðaberja keim, og einnig smá rifsberja og lime. Eftirbragðið er ferskt og kítlar á leiðinni niður. Tilvalið að stinga röri ofan í dósina og rölta með þetta niður í bæ og horfa á flugelda.
Blue Nun 24 k Gold freyðivín, sem verður að segjast eins og er, er algjör snilld. Flaskan er gullfalleg, og í víninu sjálfu eru gull flögur fljótandi um allt. Bragðið kemur skemmtilega á óvart, meðal sætt með góðum sítrus keim, kex og melónu bragði. Ég hef fengið nokkrar athugasemdir fyrir að velja þetta vín, en mér finnst flaskan snilld og vínið sjálft bara nokkuð gott. Þetta vín er lýsandi dæmi um góð kaup miðað við verð.
Saint Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc Bubbles er yndisleg freyðandi útgafa af einu besta sauvignon blanc sem fæst hér á landi. Vínið freyðir vel, er sýruríkt, með sítrónu og aspas bragði. Eftirbragðið er langt og sýruríkt.
Kientz Cremant d´Alsace Brut frá uppáhalds svæðinu mínu Alsace er létt og ljúft með steinefni, kalk og sítrónu einkenni og kitlar vel í nefinu. Frábært vín sem er ekki of sýruríkt.
Bollinger Brut Special Cuvee Non Vintage. Engin grein um freyðindi vín er fullkomin nema að hafa Bollinger með. Frábært kampavín með langt og gott bragð af kexi, ger, sítrus og steinefnum. Eftirbragðið er mjög langt og sýruríkt.
Laurent Perrier Brut Cuvee Rosé er fyrir fullorðið fólk! Bragðmikið kampavín með kirsuberjum, rauðum eplum, ger og smá sítrus. Algjört nammi vægt til orða tekið. Þetta er frábært vín fyrir þá sem vilja fagna nýju ári með einhverju einstöku!