
Það er sjaldan sem ég fjalla um Bordeaux vín í 2.000 til 2.500 kr. flokknum. Einfaldlega vegna þess að mér finnst þau ekki peninganna virði. Til hvers að kaupa Merlot eða Cabernet sem kostar jafn mikið og ýmis vín frá Chile eða Argentínu sem eru mun betri? Þess vegna er svo góð tilfinning að finna ódýrt Bordeaux vín sem er í sambærilegum gæðum og ódýr vín frá Chile og Agentínu.
Í þessu tilfelli eru ekki bara eitt heldur tvö vín, eitt rautt og eitt hvítt sem koma frá sama framleiðanda.

Mission St. Vincent Merlot-Cabernet Sauvignon 2016, er dæmi um að já það er til ágætis vín á góðu verði ennþá í Bordeaux, þú þarft bara að leita! Þetta er ekki þungt yfireikað skrímsli, en þetta er ekki létt saft heldur. Það er mikið af plómu, lyngberjum og hvítum pipar í lyktinni. Bragðið er meðalþungt með kirsuberjum, lyngberjum, þokkalegu tannín og smá papriku. Eftirbragðið er létt en þó nokkuð langt. Þetta er ekki nautasteikar vín, enda þarf ekki allt að vera nautasteikar vín. Vínið myndi henta vel með t.d. kjúkling og grilluðu grísakjöti. Óþarfi er að geyma þetta vín, njótið þess núna. Verðið er 2.200 kr.

Mission St. Vincent Sauvignon Blanc 2019 verður mitt sólpalla vín í ár! Á meðan aðrir fá sér 3.500 kr. Sauvignon Blanc ætla ég að láta þetta duga mér. Við gleymum oft að Bordeaux er ekki bara rauðvíns svæði heldur líka hvítvíns svæði. Lyktin af þessu víni er létt með aspas og greip í fyrirrúmi. Bragðið er þokkalega sýruríkt en samt ekki herpandi þurrt, greip, sítróna og örlítill aspas er mest áberandi. Eftirbragðið kemur vel út og var þokkalega lengi í munninum. Þetta er meira sólpalla og „léttir réttir“ vín en gæti samt hentað með humar eða rækju réttum. Verðið er hreint hlægilegt eða aðeins 2.069 kr.