
Þá erum við komin aftur á fullt með umfjallanir, og ætlum við að byrja með vín mánaðarins. Í þessu tilfelli förum við til Ítalíu og tökum fyrir eina af uppáhalds vínþrúgunum mínum, Primitivo (betur þekkt sem Zinfandel í Bandaríkjunum).

Það má deila endalaust um það hvort þetta er sama vínþrúgan eða ekki, en eitt er víst, þær koma báðar upprunalega frá vínþrúgu í Króatíu að nafni Crljenak. Uppáhalds ameríska Zinfandel vínið mitt er talsvert þyngra, og ávaxtaríkara en það sem ég er að leita eftir í ítölsku Primitivo þar sem ég vil fá þurrara og tannín ríkara vín.
Lýsandi dæmi um hvernig ég vil hafa Primitivo er Terratini Primitivo di Manduria 2016 frá Puglia. Vínið er kraftmikið og sterkur keimur af kryddi og mikið af svörtum pipar, en í bragðinu finnst mikið af svörtum kirsuberjum, þurrkuðum ávöxtum og jarðvegi með alkohól og pipar og gott jafnvægi er milli tanníns og ávaxta. Eftirbragðið er langt með miklum alkohól keim (enda 15%!). Eins og flest góð Primitivo, tekur það svolítinn tíma að mildast og vera í raun tilbúið til að drekka. Þess vegna þó að 2016 sé alveg tilvalið til að njóta núna, þá verður það mun betra eftir 4-5 ár. Verðið er 3.399 kr.