Trapiche Medalla Cabernet Sauvignon 2013 árgangur frá Mendoza, Argentínu.
Ég var svo heppinn að komast einu sinni í matar og vínsmakk hjá Serena Sutcliffe, einum albesta vín sérfræðing heims, og hún var þá yfir vín deild Sotheby´s.
Ég sat á móti henni og hlustaði á hana ræða um vín og auðvitað smökkuðum við sum af bestu vínum í Evrópu. Þegar kom að „spurt og svarað“ í lok kvöldsins, spurði ég hana hvaða svæði hún héldi að yrði næsta „HIT“?. Mér til mikillar ánægju, nefndi hún Argentínu. Ég var nefnilega yfirþjónn á að mínu mati besta steikhúsi landsins þá, Argentínu Steikhúsi (sáluga). Þáverandi eigendur Kristján Sigfússon og Óskar Finnsson voru mjög séðir í ýmsu, meðal annars fluttu þeir inn vín frá Argentínu (í gegnum Rotterdam minnir mig) til að nota sem vín hússins. Það vín var einmitt Trapiche Malbec og Trapiche Chardonnay. Og hvernig var vínið þá? Ásættanlegt sem hús vín fannst mér, meira að segja mun betra en ansi mörg vín hússins í þá daga (og jafnvel nú til dags) fannst mér. En tímarnir breytast og hægt og rólega fjaraði Trapiche út á Argentínu Steikhúsi, en ég hef alltaf fylgst með þróun og breytingum hjá þeim. Trapiche hefur breyst mikið í gegnum árin. Það fór frá því að vera stærsti en oft ekki besti vínframleiðandi í Argentínu yfir í að framleiða hágæða vín sem er á frekar hagkvæmu verði. Auðvitað eru þeir með ódýrara vín eins og allir vínframleiðendur, annars væru þeir ekki til í dag. En að mínu mati er bestu vínin þeirra í milli verðflokki. Sem sagt vín á verði frá 2.500 kr. til 3.500 kr. Lýsandi dæmi er Trapiche Medalla Cabernet Sauvignon 2013 árgangurinn frá Mendoza svæðinu. Þó að Malbec frá þessu svæði sé betur þekkt, þá finnst mér Cabernet Sauvignon vínin frá þeim alls ekki síðri.
Trapiche Medalla Cabernet Sauvignon 2013 er fullþroskað vín með mikið af brómberjum, sólberjum sultu, kaffi, negul og vanilla, og gott eikar bragð. Eftirbragðið er langt og gott og hefur gott tannín og alkóhol keim. Þetta er ekta steikar vín sem er tilvalið með nauti, lambi (sé alveg fyrir mér lambalæri) og jafnvel villibráð. Það er tilvalið að njóta þess núna en í góðu lagi að drekka þennan árgang í 2-3 ár í viðbót. Umboðsaðili er Mekka ehf.