Nýlega bættist í flóruna hjá Á.T.V.R. vín frá Bulas í Portúgal, og þó að Portúgal sé ennþá meira þekkt á Íslandi fyrir Púrtvín, fer ekki á milli mála að léttvíns framleiðslan hefur tekið gríðarlegan kipp. Portúgölsk léttvín eru almennt ódýr og gæðin eru oftast mun betri en verðið gefur til kynna. Á meðan nýheims vín hefur hækkað í verði en gæðin hafa staðið í stað, hafa lítt þekk svæði og lönd hægt og rólega veitt þeim skemmtilega samkeppni með hillupláss í vínbúðum, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar í heiminum. Ég neita því ekki að mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að smakka annað en hið hefðbundna Chardonnay, Cabernet og hinar klassísku vínþrúgurnar. Stundum heppnast vínin vel, stundum ekki. Hér fyrir neðan er mín skoðun og lýsing á öllum Bulas léttvínum sem fást í Á.T.V.R.
Bulas Tinto 2019
Við framleiðslu á portúgölsku rauðvíni í Douro, þá er notuð sama rauðvínsþrúgan og er notuð í púrtvín, þrúga sem er almennt í þyngri kantinum (fyrir utan Tinto Roriz sem heitir öðru nafni Tempranillo) sem gerir það að verkum að jafnvel óeikað vín getur verið þokkalega kraftmikið. Þetta vín er einn af betri kostum í ríkinu núna. Opið í nefinu með mikið af skógarberja sultu einkenni. Bragðið er meðal kröftugt með sólberjum, bláberjum og mjög góðu jafnvægi á milli tanníns og ávaxta. Eftirbragðið er meðal langt með léttan keim af alkóhóli. Vínið er tilbúið núna og algjör óþarfi að bíða, njótið þess með grilluðu lambi í sumar. Verðið er mjög gott 2.975 kr.
Bulas Branco 2020
Ég á svolítið erfitt með að átta mig á portúgölsku hvítvíni. Mér finnst hvítvínið frekar grösugt og grænt en samt vera tilbúið til að drekka, sem mér finnst mjög áhugavert og sérstakt. Bulas Branco er eitt af þeim hvítvínum sem tók mig smá tíma að finna réttu lýsingarorðin fyrir, en engu að síður er ég mjög sáttur við vínið sjálft. Vínið er frekar lokað í lyktinni með örlítið gras og sítrus einkenni en opnar sig mjög vel í bragði, með mikið af melónu, grasi, sítrónu og örlitlum keim af apríkósu í lokin. Eftirbragðið er örlítið sýruríkt og endist lengur en ég átti von á. Ég prófaði þetta vín með sushi og var mjög sáttur við valið. Verðið er sanngjarnt á 2.975 kr.
Bulas Gran Reserva Tinto 2011
Þá er stóri kallinn mættur!! Það er með eindæmum að finna hágæða 11 ára gamalt vín undir 10.000 kr. hvað þá undir 6.000 kr.!! Þetta vín er gert á gamla mátann, meira að segja þá eru þau ennþá að láta fólk pressa safann úr berjunum með fótunum!! Vínið er geymt í frönskum eikartunnum í 14 mánuði áður því er átappað og svo sett í geymslu þangað til framleiðandanum finnst það tilbúið í sölu. Vínið er gríðarlega opið í nefinu með mikið af skógarberjasultu, eik, kaffi og áfengi. Bragðið er kröftugt með mikið af sólberjum, vanillu, kaffi, sveskjum og plómu einkenni. Eftirbragðið er mjög langt og kitlar aðeins í hálsinn með áfengis einkenni. Frábært vín á allan hátt, tilbúið að drekka núna, en ég er forvitin um hvernig það mun bragðast eftir 10 ára geymslu. Verðið er hlægilegt miðað við gæðin á 5.975 kr. Þetta er steikarvín í húð og hár!
Bulas Reserva Branco 2018
Hér er vín sem er lýsandi dæmi um hvað getur gerst með smá geymslu í eikartunnu, þó hvítvínið hafi ekki verið meira en 4 mánaði í eik, er rosaleg breyting á hvítvíni Bulas. Vínið er talsvert þyngra og aðeins feitlagnara en hefur samt sem áður góðan keim af suðrænum ávöxtum, rauðum eplum og sítrus bæði í bragði og lykt. Ágætis vín og er tilbúið að drekka núna. Ég mæli með lax eða silungi með þessu víni. Verðið er 3.975 kr.
Bulas Reserva Tinto 2016: Sjá vín mánaðarins apríl 2022