Bulas Reserva Tinto 2016
Portúgal hefur alltaf verið þekkt á Íslandi fyrir framúrskarandi portvín. En íslendingar hafa hægt og rólega verið að uppgötva að rauðvín frá Douro svæðinu er feiki gott líka, ekki nóg með að það sé gott heldur er það frekar ódýrt líka! Ég hef í gegnum árin fjallað um rauðvín frá Portúgal sem mér finnst gott og hef oft velt því fyrir mér hvenær fólk ætlar að gera sér grein fyrir þeim háu gæðum sem koma þaðan. Það er nú ekki eins og við þekkjum ekki Portúgal, annar hver maður hefur farið þangað í frí (hinir fara til Tenerife) að minnsta kosti einu sinni. Það er gaman að sjá að fólk er að fatta að það þarf ekki að leita alla leið til Chile eða Argentínu til að fá gott þungt vín á skynsamlegu verði, og þó það standi ekki Cabernet Sauvignon eða Malbec á flöskunni þýðir það ekki að vínþrúgan sé ekki góð. Einn nýjasti vínframleiðandinn frá Portúgal til að sjást í ríkinu er Bulas.
Ég fékk þann heiður að smakka léttvíns línuna hjá þeim, og verð að segja að ég er mjög sáttur við gæðin. Þó ég hefði auðveldlega getað valið ódýrara eða dýrara vínið þeirra sem vín mánaðarins, fannst mér Reserva besti fulltrúinn varðandi gæðin og miðað við verð. Þess má geta að það verður fjallað um restina af línunni í maí eða júní fyrir þá sem hafa áhuga.
Reserva vínið er frekar kröftugt vín eins og reyndar öll rauðvínin frá Bulas (finnst mér). Helsta vínþrúgan er Touriga Nacional, þung bragðmikil vínþrúga sem gefur bæði rauðvíni og portvíni þungu einkennin sín. Vínið er mjög opið í nefinu með sólberja, negul, vanillu og alkóhól einkenni. Bragðið er einnig mjög opið með sterkan keim af vanillu, sólberjum og negul. Einnig má finna sultu, rúsínu, kaffi og eikar bragð. Eftirbragðið er frekar þungt og tannín ríkt með langt alkóhól ríkt eftirbragð. Frábært vín núna en hægt að geyma og leyfa því að þroskast í ca. fimm ár í viðbót. Ekta grill og steikarvín. Verðið er gríðarlega gott miðað við gæði á aðeins 3.975 kr.