
Það hefur ekki verið skortur á góðum vínum sem ég hef smakkað árið 2021.
Í ár hef ég ákveðið að sigta út og velja þau fimm vín sem mér fannst standa upp úr af öllum sem ég smakkaði. Þó að ég hafi smakkað helling af góðu víni sem fæst ekki í ríkinu, ákvað ég að öll vínin á listanum í ár verða að fást í ríkinu.

Mér finnst að það eigi að vera hægt að kaupa vínin einhvers staðar á auðveldan hátt, en hvort það verður sama hugsun á næsta ári veit ég ekki, en það fer allt eftir því hvernig málin þróast varðandi vínsölu á netinu til dæmis. Annar hlutur sem skiptir miklu máli fyrir mig, er þetta peninganna virði?? Mér er alveg sama hvað vínið kostar og hversu „flott“ það á að vera, ef mér finnst það ekki peninganna virði þá fjalla ég ekki um það.
Það verða margir eflaust ósammála um mitt val og velta fyrir sér hvort ég hafi fengið mér einu glasi of mikið, en ég stend við mitt val.
Hér fyrir neðan eru fimm bestu vínin sem ég smakkaði 2021 og fást í Á.T.V.R.

No. 5 Zonin Prosecco
Prosecco frá stórum framleiðendum á Ítalíu er almennt ekki í sérstaklega háum gæðum, enda ódýrt, auðvelt og þægilegt að drekka. Það var akkúrat það sem ég hugsaði þegar ég smakkaði þetta vín fyrst, en svo enda ég á að kaupa þetta nokkuð oft til að drekka þegar ég er með gesti eða vill hafa pínu rómo með konunni. Kannski vegna þess að þetta er það freyðandi vín sem kom mér mest á óvart, allt frá útliti á flöskunni yfir í innhaldið sem öskrar góð gæði.

Zonin Prosecco Brut Cuvee 1821 NV er sýruríkt vín með lime, sítrus og græn epla bragði og lykt. Það freyðir rosalega vel í glasinu og endist þokkalega lengi í munni, eftirbragðið er óvenju langt miðað við prosecco og mjög sýruríkt. Létt og bragðgott vín með gott og langt eftirbragð. Hönnuninn á flöskunni er mjög flott og gefur til kynna að hér er vandað vín á ferð. Verðið er hlægilegt á 2.214 kr. Tilvalið vín í veislu sem fordrykkur.

No. 4 Jean Peirre Moueix Saint Emilion
Ég er búin að bíða í heilt ár eftir að geta fjallað um þessa línu. Ég átti erfitt með að velja á milli Saint Emilion og Pomerol vínsins þeirra til að setja í efstu fimm, en fyrir rest var það verðið sem gerði útslagið en hingað til hef ég ekki smakkað neitt ómerkilegt frá þeim hvorki frönsk eða bandarísk vín. Hversu góður er þessi framleiðandi? Dominus 2018 frá Napa Valley er í þeirra eign og var valið vín ársins hjá Wine Spectator, virtasta vínblaði Bandaríkjanna.

Jean-Pierre Moueix St. Emilion 2016, núna erum við komin á svæði í Bordaux þar sem eru framleidd hágæða vín. Þetta vín er með meirihluta Merlot og smávegis Cabernet Franc og þar af leiðandi mjög ávaxtaríkt og flókið vín. Vínið lyktar mikið af berjasultu með svörtum berjum og kryddi, og angan af villisveppum og jarðvegi í lokin. Bragðið er meðal þungt, tannínríkt með góðan keim af bláberja sultu, plómu, smá negul, kanil og kaffi í lokin. Eftirbragðið er langt og silkimjúkt. Vínið er tilbúið núna og er hreint frábært! Verðinu er stillt í hóf eða aðeins 3.929 kr. frábært vín með rauðu kjöti.

No.3 Guelbenzu Azul
Vín sem hefur verið í ríkinu í mörg ár, og heldur áfram að seljast hægt og rólega. Þetta verður aldrei mest selda vínið frá Spáni. Ekki vegna þess að það sé ekki nógu gott, frekar vegna þess að þetta kemur ekki frá Rioja, og Íslendingar eru því miður búnir að stimpla inn í hausinn á sér að bestu vín frá Spáni séu bara frá Rioja. En ÞVÍLIKT frábært kaup í þessu víni!!

Guelbenzu Azul 2017 frá Ribera del Queiles er ekki beint dæmigert spænskt vín, það er blanda af Tempranillo, Cabernet Sauvignon, Merlot, Graciano og Syrah hvorki meira né minna! Vínið er geymt í amerískri og franskri eik í 9 mánuði sem kemur sterkt fram í lyktinni og gefur víninu sterkan kakó, kaffi og vanillu angan. Bragðið er alkóhólríkt með svörtum kirsuberjum, eik og vanillu. Gott jafnvægi er á milli tanníns og ávaxta, og það gerir þetta vín auðvelt að drekka núna, en eins og flestir góðir spánverjar þá má geyma það í nokkur ár í viðbót. Ég myndi drekka þetta með lambaréttum frekar en öðru kjöti. Verðið er gríðarlega sanngjarnt á 2.777 kr.

No. 2 Duckhorn Cabernet
Hélstu virkilega að ég myndi ekki hafa vín frá einum besta vínframleiðanda í Bandaríkjunum á listanum?? Verst er að ég hafði bara pláss fyrir eitt vín og Cabernet varð fyrir valinu.

Duckhorn Cabernet Sauvignon 2017 Napa Valley er rosalega líflegt í nefinu með mikið af ristuðu kaffi, hnetum, dökku súkkulaði og brómberja einkennum. Bragðið er mjög þungt með brómberjum, papriku, kaffi, ristuðu brauði, vanillu, cedrus og sultu, sem breytist hægt og rólega í sólberja sultu og alkóhól í löngu og sterku eftirbragði. Á meðan vínið er svona ungt er best að umhella því alla vega klukkutíma fyrir matinn og leyfa því að anda. Án efa er þetta steikarvín fyrst og fremst, frábært með tomahawk steik, ribeye, lambahrygg og fleiri bragðmiklum kjöt réttum. Ef þú hefur efni á því, endilega kauptu 6-12 flöskur af þessu víni til að geyma og drekka í rólegheitunum. Verðið er 8.317 kr.

No.1 Vín ársins hjá Vínsmakkarinn 2021, Chateau Ducluzeau 2016
Þegar ég keypti flöskuna þá voru bara 4 flöskur í neðstu hillunni fyrir aftan eitthvað annað vín!! Ég var ekki einu sinni viss um að það myndu koma fleiri eða hvort það var að detta út úr ríkinu. Sem betur fer virðist vera nóg til (ný sending kom 19. des.) og vínið búið að fá betra hillupláss! Af hverju varð þetta vín fyrir valinu?? Fyrst og fremst er þetta stórkostlegt vín úr frábærum árgangi og frá vanmetnu svæði. Ef þetta hefði komið frá öðru svæði í Bordeaux, eins og Pauillac eða St. Estephe, væri þetta sennilega þrisvar sinnum dýrara, svo njótið þess á meðan það er til.

Chateau Ducluzeau 2016 árg. frá Listrac svæðinu er kröftugur bolti með mikið af papriku, sólberjum, cedrus og kaffi í nefinu. Bragðið er þungt og flókið með kaffi, dökku súkkulaði, papriku, eik, brómberjum og mikið tannín. Jafnvægið á milli tanníns og ávaxtanna er frábært og eftirbragðið er langt og gott. Vínið má drekka núna en það verður sennilega betra eftir 7 til 10 ára geymslu. Verðinu er stillt í hóf á 4.299 kr.. Þetta vín er tilvalið steikar eða lambalæris vín og væri flott með hátíða matnum.