Veneto svæðið á Ítalíu                                                                                                            

Undanfarið hefur salan á ítölskum vínum vaxið til muna. Ein ástæðan er sú að gæði ítalskra vína hafa aldrei verið meiri en núna. Hver árgangur síðan 1995 hefur verið langt fyrir ofan meðallag hvað gæði varðar. Margir framleiðendur hafa einnig tekið sig á og passað upp á að jafnvel ódýrustu vínin séu sambærileg að gæðum og vín í sama verðflokki frá öðrum löndum t.d. Chile og Argentínu.

Ekki var hægt að segja þetta fyrir 30 árum síðan. Þó það komi ekki á óvart að ítölsk vín eru að sækja á hér heima, þá kemur kannski á óvart hvaða svæði eru að verða virkilega vinsæl. Eitt svæði sem hefur verið frekar áberandi undanfarið ár er Veneto, sem er á norðaustur Ítalíu, og frægasta borgin á svæðinu er án efa hin undurfallega Feneyjar.

Á Veneto svæðinu er framleitt meira af D.O.C. vínum en á nokkru öðru svæði á Ítalíu. Það eru fjögur svæði sem hafa náð mestri fótfestu á Íslandi.

Bardolino: Þar eru rauðvín búin til. Vínin eru oftast mjög létt og þægileg, ekki vín til að geyma.

Soave: þetta svæði var hækkað upp í D.O.C.G. ( hæsti gæðaflokkur ), vínið er hvítt, oftast frekar þurrt með hátt sýrustig og er ætlast til að það sé drukkið ungt. Þó er til sætt Soave hvítvín sem heitir Recioto Soave en lítið er framleitt af því.

Proseco: Létt freyðivín, oftast þurrt, mjög þægilegt, en gerir lítið kröfur til bragðlaukanna.

Valpolicella: Einu sinni kallaði Robert Parker helsti víngagnrýnandi Bandríkjanna þetta vín, “insipid industrial garbage” eða lapþunnt verksmiðju framleitt sorp. Sem betur fer hefur þetta breyst til muna, en til eru fjórar mismunandi tegundir af Valpolicella.

Valpolicella D.O.C.: Rauðvín sem er yfirleitt létt og tilbúið til drykkjar strax, hefur mikið ávaxtabragð, gott eitt og sér eða með léttum mat.

Valpolicella Ripasso: Valpolicella sem er sett í tunnur sem hafa ennþá leifar af Recioto  (sjá neðar). Þetta gefur víninu meiri fjölbreytni og þyngd.

Recioto: Vín sem er búið til úr þurrkuðum vínþrúgum til að fá meiri sykur í vínið, minnir helst á portvín.

Amarone: Búið til með svipaðri aðferð og Recioto en hefur meira súkkulaði-krydd bragð og er einnig frekar í þurrari kantinum.

Þessi færsla var birt í Uncategorized, Vínkennsla og merkt sem , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply