Vín mánaðarins júlí 2021.

English

Inn á milli þess að fá að smakka öll þessi yndislegu nýju vín sem eru á markaðinum, fæ ég eitt og eitt „gamalt og  gott“ vín sem hefur verið til sölu árum saman í Á.T.V.R..  Ég smakka þau til að athuga hvernig þau standa sig í samanburði við ný vín sem eru að koma frá sama svæði.  Sum standa sig vel önnur ekki eins vel. Eitt vín sem er að standa sig prýðilega vel er Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico.

Ruffino hefur verið á íslenska markaðinum allavega síðan ég byrjaði að læra til þjóns fyrir 30+ árum síðan. Þetta var eitt af þeim svokölluðu„hátíðar“ vínum sem voru notuð við hátíðleg tækifæri þegar maður vildi gera vel við sig. En raunin er sú að þetta er hvorki safnara vín né sérstakt hátíðar vín, þetta er gott vín sem er tilvalið að grípa með góðum mat hvenær sem er.  

Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2017 er frekar opið í nefinu með góð kirsuberja, rifsberja og villisveppa einkenni. Bragðið er meðal þurrt með kirsuberja, papriku, oregano og örlítil kaffi einkenni. Tannínið er í meðallagi og í góðu jafnvægi.  Gott vín sem er tilbúið núna og þó það megi geyma það í nokkur ár verður það sennilega ekki betra en núna. Verðið er sanngjarnt eða 3.699 kr.. Vínið hentar vel með tómat pasta réttum, bragðgóðum pitsum eða þokkalega vel krydduðum kjúkling.  Eina sem mér finnst mega laga er þessi forljóti miði, sem er að mínu mati með ljótustu flöskumiðum í Á.T.V.R. í dag, en það er þess virði að horfa fram hjá því til að drekka gott vín.

Þessi færsla var birt í Nýlega smakkað, Uncategorized, Vín mánaðarins og merkt sem , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply