
Þeir sem þekkja mig, vita að ég elska pizzu og ég elska rauðvín. Meira að segja skrifaði ég grein einu sinni fyrir lifandi löngu um hvaða vín hentar hvaða tegund af pizzu (ef ég finn hana skal ég endurbirta greinina). En ekki eru allar pizzur eins, alveg eins og ekki eru öll rauðvín eins.
Þegar ég er t.d. að borða frosna pizzu þá drekk ég bara gos eða vatn, þegar ég kaupi ódýra Dominos þá hentar bjór eða ódýrt vín, en þegar ég er að gæða mér á hágæða pizzu eins og Flatey eða Eldofninn, þá kemur ekkert annað til greina en gott vín með.

Annað sem ég hef gert að undanförnu er að leita að vínum sem koma frá „óhefðbundnum“ svæðum. Sem sagt minna þekkt svæði sem eru með gott vín en bragðast ekki nákvæmlega eins og öll hin. Eitt af þeim sem ég fann nýlega er Clos de Gat Har’el Merlot frá Judean Hills í Ísrael. Vínið sem ég smakkaði frá þeim er 2015 árgangur af Merlot. Hvað gerir það öðruvísi en hefðbundið Merlot? Í fyrsta lagi var þetta mun þurrara og tannínríkara en flest Merlot sem ég haf smakkað. Ávextirnir eru til staðar, t.d. var plóma, og villisveppir mjög áberandi í lykt og bragði. En vínið var svo þétt að það þurfti að umhella því á meðan ég beið eftir pizzunni. Þegar maturinn var kominn heim hafði vínið mýkst talsvert og samsetningin á víninu og pizzunni var himnesk. Þetta er ekki ódýrasta vínið í boði, kostar 4.113 kr. en alveg vel þess virði að prófa að minnsta kosti einu sinni.