Nokkur vel valin og góð vín.

English:

Eftir alla þessa umfjöllun um þung, bragðmikil vín í sumar, fannst mér kominn tími til að fjalla um frábær vín sem eru bragðgóð en hafa aðeins fínlegri einkenni. Þess vegna erum við að fara aftur til Ítalíu en einnig að skreppa aðeins til Marokkó (já þau búa til vín þar).

Við skulum byrja í Toskana, í heimsókn hjá Colognole fjölskyldunni aftur, en ég valdi Colognole Riserva del Don Chianti Rufina 2015 sem vín mánaðarins hjá mér í maí 2022, svo ég held að flestir viti að mér fannst dýrasta vínið þeirra í ríkinu mjög gott. En hvernig smakkaðist ódýrara „venjulega“ vínið þeirra? Lestu fyrir neðan og sjáðu hvað mér fannst.

Colognole Sinopie 2018, Chianti Superiore er með betri Chianti Superiore sem ég hef smakkað, enda eins gott, vegna þess að þrátt fyrir hvað nafnið gefur til kynna, þá er Superiore vín hvorki talið dýrt né í háum gæðum. Nafnið kemur aðallega frá því að það er meira áfengi en þarf að hafa samkvæmt ítölskum áfengislögum. En í þessu tilfelli er verðið alveg í lagi miðað við gæðin.

Colognole Sinopie 2018 er frekar lokað í nefinu í fyrstu en opnar sig eftir smá stund með góð jarðvegs og trufflu einkenni. Bragðið er létt og ávaxtaríkt með góðum kirsuberjum, sveppum, rifsberjum og örlitlum kanil. Tannínið er frekar mjúkt en passar við svona ávaxtríkt vín sem á að drekka strax. Verðið er mjög gott enda erfitt að finna gott vín á 2.699 kr. nú til dags. Það fer vel með grísa og kjúklinga réttum. Endilega njóttu þess núna.

Colognole Chianti Rufina 2018 er í aðeins hærri gæðum en Sinopie og það finnst mest í bragðinu.  Vínið hefur svipaða eiginleika í nefinu t.d. kirsuber, rauð ber eins og rifsber og sveppi. Bragðið er aðeins fínlegra og ekki alveg eins gróft. Bragðið er aðeins þurrara og hefur örlítið meira tannín og gefur þroskaðan rifsberja keim. Eftirbragðið er meðal langt og gott. Vínið er tilbúið núna og hentar vel með ostum og kjöt platta. Verðið er sanngjarnt á 3.199 kr.

 

 

Colognole Riserva del Don Chianti Rufina 2015 sjá hér.

Það er einnig til mjög skemmtilegt Sauvignon hvítvín hjá þeim en það virðist ekki vera til í Á.T.V.R. eins og er.

 

 

 

 

 

 

Gott rauðvín frá Marokkó?? Hvað á það að þýða??!! Með tækni framförum, breyttu loftslagi og þekkingu hjá víngerðarmönnum virðist allt hægt nú til dags. Meira að segja sýnist mér að það sé hægt  að rækta vín hvar sem er (nema á Íslandi auðvitað). En í Marokkó? Já gott fólk ég er tilbúin að viðurkenna að vínið sem ég smakkaði kom mér virkilega á óvart. Hristist jörðin þegar ég smakkaði vínið? Nei, en ég þurfti að staldra við og viðurkenna að í blindsmakki hefði ég ALDREI giskað á að vínið væri Syrah frá Marokkó. En svo kom stóra spurningin sem skiptir mig alltaf miklu máli þegar ég smakka vín, er þetta peninganna virði? Svarið er já.

Syrocco Syrah 2018 minnir mig á gott vín frá Rhone frekar en nýheims vín. Nefið er frekar opið með mikið af leður, plómu og sultu einkenni. Bragðið er einnig þurrt og tannínríkt með plómu, skógarberjum og pipar. Það er mjög gott jafnvægi í víninu og meðallangt eftirbragð. Vínið er gott með alls konar lambaréttum myndi ég segja. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg viss hversu lengi má geyma vínið og hvort það mundi þroskast meira, en ég sé fyrir mér að 2-3 ár í viðbót væri fínt, en það er í góðu lagi að drekka það núna. Verðið er 4.199 kr.

Þessi færsla var birt í Nýlega smakkað, Uncategorized, Vínfræði, Vínsmakkarinn mælir með og merkt sem , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply