Tvö góð vín fyrir vorið.

English

 

Sólin skín, fuglarnir syngja, logn og vor í lofti og bara núll gráður! Vorið er greinilega komið! Með það í huga ákvað ég að fjalla um tvö góð en mjög ólík vín frá sama vínframleiðanda frá Chile,  eitt Sauvignon Blanc og eitt Merlot. Þeir sem þekkja mig eru sennilega ekki hissa á að ég er að fjalla um Merlot frá Chile, enda finnst mér Merlot þaðan almennt í háum gæðum. Aftur á móti heyrir það til undantekninga að ég fjalli um Sauvignon Blanc frá Chile

 

 

Ég myndi segja að fyrir hvert gott sauvignon blanc frá Chile sem ég hef smakkað eru ca. tíu sem eru í besta falli ómerkileg (að mínu mati). Það þarf að vera virkilega flott sauvignon blanc frá Chile til að draga mig frá góðu Ný sjálensku Sauvignon Blanc eða Sancerre frá Frakklandi!

Með það í huga eigum við ekki að byrja á Sauvignon Blanc?

Aresti Trisquel Sauvignon Blanc Gran reserve 2020 frá Anconcagua Chile er þrátt fyrir ungan aldur gríðarlega þroskað og opið í lykt.  Það fer ekki milli mála að hér er ekta Sauvignon Blanc á ferð. Nefið er mjög grösugt til að byrja með og svo kemur mikið af aspas og stikkilsberjum í bakgrunni.  Bragðið er mjög opið, tært, þurrt og ferskt, stikkilsber og aspas er áberandi fyrst og svo kemur súrhey og áberandi sítrus strax á eftir. Eftirbragðið er langt, þurrt og ferskt. Þetta er ekki geymslu vín, njótið núna og í allt sumar, ég veit að þetta verður eitt af mínum uppáhalds vínum í sumar.

Niðurstaða: Frábært vín sem minnir mig frekar á gott Sancerre en ný heims vín, það passar vel með salati en ennþá betur með sólinni (ef við fáum sól í ár)! Verðið er hlægilegt eða aðeins 2.989 kr.

 

Aresti Trisquel Merlot 2019, Valle de Central, Chile, er  frekar lokað í nefinu ennþá og opnast ekki almennilega fyrr en eftir ca. 30 mín. Þá kemur mikið af plómu, kirsuberja og kaffi angan. Bragðið er hins vegar mjög opið með slatta af kirsuberjum, lyngberjum, vanillu, kaffi og plómu einkenni. Það er mjög gott jafnvægi á milli tanníns og ávaxta. Eftirbragðið er langt og frekar þykkt.

Niðurstaða: Gott vín, má drekka núna en væri sennilega best eftir 3 ár. Verðið er sanngjarnt á 3.365 kr. og þetta er tilvalið með grilluðu fuglakjöti eða ostum.

Þessi færsla var birt í Vínsmakkarinn mælir með og merkt sem , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply