Endurreisn Robert Mondavi hússins.

English

Í mörg ár var Robert Mondavi leiðtogi vínframleiðenda í Napa Valley og margir myndu segja jafnvel leiðtogi í framleiðslu gæða vína frá Bandaríkjunum! Hann var megin ástæðan fyrir því að nafn vínþrúganna var sett á vínmiðana, svo fólk vissi í raun hvað það var að drekka. Á meðan flestir ameríkanar voru að drekka ódýr, dýsæt og jafnvel varla drykkjarhæf vín, var hann ásamt örfáum öðrum vínframleiðendum að sýna að  vín frá Napa Valley væri ekki síðri og jafnvel betra en það sem framleiðendur í Bordeaux, Frakklandi væru að bjóða upp á.

Virðingin fyrir Robert Mondavi var svo mikil að meira að segja Rothschild fjölskyldan fór í samvinnu við fyrirtæki hans til að framleiða eitt virtasta og þekktasta vín heims OPUS ONE! En hans stærsta afrek að mínu mati er hvernig honum tókst að gera eina óvinsælustu hvítvínsþrúgu í Bandaríkjunum, Sauvignon Blanc, að einni eftirsóttustu vínþrúgunni með því að setja hana í eikar tunnur og breyta nafninu í Fume Blanc!

En því miður tókst börnum hans að skemma bæði nafn og gæði fyrirtækis síns með því að framleiða og markaðssetja ódýrt vín með Woodbridge línunni í Bandaríkjunum og Mediterranean línunni í Evrópu. Það tók ekki langan tíma fyrir bræðurna að eyðileggja Mondavi nafnið og í lokin var fyrirtækið selt til Constellation samsteypunnar.

Það tók þó nokkurn tíma fyrir Constellation að rífa upp Mondavi nafnið aftur, en það tókst þó fyrir rest. Ég hef á tilfinningunni að Robert heitinn sé að horfa niður með stolti á árangurinn og þá virðingu sem vínin sem bera nafnið hans eru að fá í dag. Er þetta ódýrt vín? Nei, og það á ekki að vera ódýrt. Mondavi merkið er tákn um hágæða vín sem kosta sitt. En er þetta peninganna virði? Fyrir tíu árum síðan hefði ég sagt nei, en í dag get ég sagt tvímælalaust JÁ! Mondavi vínin eru komin aftur á þann stall sem þau eiga að vera á, og það er hrein unun að drekka þau!

Hér eru tvö af vínunum þeirra sem ég fékk að smakka um daginn.    

Robert Mondavi Napa Valley Cabernet Sauvignon 2018

Að mínu mati hafa Mondavi vínin veriðframleiddmeira í ætt við franskan fínleika heldur en ný heims bolta. Þetta Cabernet minnir meira á gott Bordeaux vín en ekta California Cabernet. Lyktin er opin og skemmtileg með papriku, plómu og mjúkum vanillu tón. Smá tíma tekur fyrir bragðið að opna sig en þegar það gerist kemur mikið af plómu, eik, vindlatóbaki, papriku, vanillu og smávegis af myntu. Þó að tannín sé til staðar er það ekki áberandi eða yfirþyrmandi. Eftirbragðið er langt en mjúkt. Vínið á langt í land með að vera tilbúið og ef það verður drukkið á næstu þremur árum, mæli ég með að umhella víninu u.þ.b. tveimur tímum á undan.  Frábært vín með hvaða nauta eða lamba rétti sem er. Verðið er ekki ódýrt, kostar 7.999 kr. enda á það ekki að vera það.

Robert Mondavi Napa Valley, Carneros Pinot Noir 2019.

Carneros svæðið er þekkt í Napa Valley fyrir að vera framúrskarandi Pinot Noir ræktunarsvæði og þetta er eitt af vínunum sem sýnir af hverju. En enn og aftur eru frönsk áhrif áberandi. Vínið er frekar lokað í lykt en það sem kemur fram er að mestu kirsuber. Bragðið er létt og silki mjúkt með kirsuberjum, villi sveppum, jarðvegi og örlítið af ristuðu brauði í fararbroddi. Eftirbragðið er létt, gott og langt. Vínið er tilvalið til drykkjar núna en má geyma og láta þroskast í nokkur ár í viðbót. Verðið er 5.999 kr., og vínið er flott með grísakjöti og fugla kjöti.

Þessi færsla var birt í Uncategorized, Vínsmakkarinn mælir með og merkt sem , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply