
Oft á tíðum er skemmtilegasta upplifunin í Á.T.V.R. að tala við vínráðgjafa, ræða um vín sem af einhverjum ástæðum hreyfist lítið en er bókstaflega hverrar einustu krónu virði. Eitt svona vín er án efa Chateau Duclezeau frá Listrac-Medoc i Bordeaux, Frakklandi. Listrac svæðið er ekki best þekkta svæðið í Bordeaux en engu að síður kemur þrusu gott vín á viðráðanlegu verði þaðan.
Þennan gullmola fann ég í neðstu hillunni í Heiðrúnu nánast falin á bakvið. Ég reikna ekki með því að þetta vín verði langlíft í ríkinu svo ég mæli með að grípa eina eða tvær flöskur áður en það hverfur fyrir fullt og allt.

Chateau Ducluzeau 2016 árg. frá Listrac svæðinu er kröftugur bolti með mikið af papriku, sólberjum, cedrus og kaffi í nefinu. Bragðið er þungt og flókið með kaffi, dökku súkkulaði, papriku, eik, brómberjum og mikið tannín. Jafnvægið á milli tanníns og ávaxtanna er frábært og eftirbragðið er langt og gott. Vínið má drekka núna en það verður sennilega betra eftir 7 til 10 ára geymslu. Verðinu er stillt í hóf á 4.299 kr.. Þetta vín er tilvalið steikar eða lambalæris vín og væri flott með hátíða matnum.