
Cune er fyrir löngu búið að festa sig í sessi á Íslandi, enda gott vín á góðu verði. Þó yngri vínin eins og Crianza eða Reserva séu í sjálfu sér góð, þá hef ég alltaf hallast meira að Gran Reserva hjá þeim, mér finnst það þyngra, bragðmeira og þroskaðra.
Enda eldra vín og oftast betri árgangar en hitt. Gran reserva er þungt í lykt og bragði, með mikið af vanillu, mokka kaffi, svörtum kirsuberjum, sedrus, og smávegis af pipar. Eftirbragðið er tannínríkt og þurrt með vott af alkohóli í lokin. Þrátt fyrir að vera árgangur 2014 á þetta víneftir að þroskast talsvert meira. Ég myndi umhella víninu ef tími gefst og njóta þess með grilluðum lambakótilettum. Verðið er hlægilegt miðað við gæðin eða aðeins 3.499 kr.