Cantine di Ora Amicone, 2016, Veneto Ítalía.
Það er alltaf gaman að fara í matarboð þar sem eina sem maður þarf að gera er að mæta og njóta þess að borða góðan mat og hafa gaman. Einnig er gaman að sjá hvaða og hvers konar vín aðrir bjóða upp á með matnum. Við vitum öll að smekkur manna er misjafn og fróðlegt er að sjá hvað öðrum finnst eiga heima með matnum sem er í boði.
Stundum veldur vínið vonbrigðum og stundum leynast algjörir gullmolar. Nýlega var ég í matarboði þar sem bæði var vín sem olli vonbrigðum og svo vín sem kom gjörsamlega á óvart og var algjör gullmoli. Vínið sem olli vonbrigðum var vín sem Á.T.V.R. vínráðgjafi mælti með (það gerist sjaldan að þeir velja „rangt“ vín held ég), og gullmolinn var vín sem gestir komu með, sem þeim sjálfum finnst mjög gott, og er vín sem mér hefði aldrei dottið í hug að velja satt að segja. Það sem mér fannst ennþá betra er að gullmolin var næstum því helmingi ódýra en hitt vínið. Hér er smá lýsing á víninu:

Amicone er vín sem kemur á óvart hversu kröftugt það er miðað við flest Veneto IGT vín (IGT löggjöfin á Ítalíu). Þetta vín hefur mikið bragð af dökkri kirsuberja sultu, svörtum plómum, negul, reyk og eik. Eftirbragðið er meðal langt, þétt og tannínríkt. Ég get alveg mælt með þessu víni með nautalund eða lambi í þykkri sósu. Þetta vín hentar sérstaklega fyrir þá sem vilja ekki of þungt og massíft vín. Verðið er flott, 2.599 kr.. Vertu ekki að geyma vínið, njóttu núna.