Screaming Eagle 1996 og 1998 vínsmakk.

Fyrir þá sem ekki þekkja Screaming Eagle vínin, þá eru þau talin með þeim eftirsóttustu í heimi í dag.

Verðið á uppboði getur farið allt frá 150.000 kr. til 350.000 kr. fyrir flöskuna, allt eftir því hvaða árgangur er í boði. Vínið er framleitt í mjög litlu magni og í denn þurfti að vera á áskrifenda lista til að fá tækifæri á að kaupa þrjár flöskur (sem var hámarks fjöldi sem hver og einn gat keypt í einu).

Hvernig mér tókst að komast á listann er ævintýralegt vægast sagt. Það verður ekki farið í það hér, nema að segja að þetta var mjög skemmtilegur tími.  

Mér tókst að ná 3 mismunandi árgöngum 96, 97, og 98, ásamt því að fá eina flösku af 94 árgang senda til mín áður en ég hætti að kaupa vínin.  Af hverju hætti ég að kaupa vínið? Vegna þess að flaskan var komin upp í 250 dollara árið 2000 (ca. 60.000-70.000 á núvirði), þó ég vissi að ég gæti selt flöskurnar á mun hærra verði seinna, er ég einn af þeim sem vildi frekar drekka þetta góða vín með góðum vinum heldur en að selja það seinna meir.  Sannleikurinn er að ég hef í gegnum árin drukkið flest af bestu vínum frá bestu vínsvæðum heims og einnig marga af bestu árgöngunum. Það er trúlega ekki til gæða vín sem ég hef ekki smakkað á mínum 30 ára þjóna ferli, og í hreinskilni sagt, ekkert af þeim hefur mér fundist 70.000 kr. virði hvað þá meira. Fólk sem veit ekki aura sinna tal getur keypt svona vín mín vegna. Mér aftur á móti finnst mun meira spennandi í dag að reyna að finna gott vín á góðu verði, sem getur verið ævintýri út af fyrir sig.

Eftir smá umhugsun ákvað ég að tími væri komin til að klára síðustu tvær flöskurnar, og ég notaði tækifærið og bauð góðum vinum í mat og drykk.

En hvernig bragðast vín sem er svo hátt metið og dýrt?  Bara stórkostlega auðvitað! Ég neita því ekki að ´98 árgangurinn er eitt af fimm bestu vínum sem ég hef smakkað. Ekki verra að vera í frábærum félagsskap og borða meiriháttar góðan mat, þetta tvennt gerir allt mun betra. Hér fyrir neðan er lýsing á víninu.

Screaming Eagle 1998.

Þetta vín er kröftugt en samt silkimjúkt, í nefi má finna keim af grænni papriku, skógarberjum, svörtum pipar og rúsínum.  Í bragði mátti einnig finna skógarber og rúsínur, en líka góðan keim af papriku, sólberjasultu, vanillu, súkkulaði og loks ristað brauð.  Eftirbragðið var gríðarlega langt og tannínríkt.   Frábært vín sem mætti alveg geyma í 5 ár í viðbót.       

Screaming Eagle 1996

Þegar lyktað er af víninu er mest áberandi rúsínur, fíkjur, sólberja lauf, dill og svartur pipar.  Bragðið er þétt með soðnum sólberjum, fíkjum, negul, kaffi, papriku og sveskjum. Eftirbragðið er langt og gott en vínið er aðeins farið að eldast.  Þetta er ennþá frábært vín en aldurinn aðeins farinn að segja til sín. Að mínu mati er þetta vín tilbúið núna og ég myndi ekki geyma það mikið lengur. 

Þess má geta að ég bauð Steingrími Sigurgeirssyni að smakka ´96 með mér fyrir ca. 20 árum síðan, hér er greinin sem hann skrifaði eftir smakkið.

Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Leave a Reply