
Þá er mitt hefðbundna vetrarfrí búið og kominn tími til að byrja að skrifa aftur! Ég fékk að smakka heilan helling af góðu víni árið 2021 sem ég hef beðið allt of lengi með að fjalla um. Eitt af þeim er Calera Mills Vineyard Pinot Noir. Þó að ég hafi fjallað um litla bróðurinn frá Central Coast hef ég beðið spenntur eftir að deila minni reynslu af þessum bolta! Þó þetta sé bolti, hefur vínið þessi silki mjúku einnkenni sem gott Pinot Noir býður alltaf upp á.

Calera Mills vineyard 2016 Pinot Noir er ótrúlega opið í nefinu og gefur einstaklega ljúf rifsberja, plómu, brioche brauð og eikar einkenni. Bragðið er jafn opið og hefur mikið af rifsberjum, eik, ristuðu brauði, kaffi og mjólkur súkkulaði, með vott af alkóhóli og kirsuberjum í bakgrunni. Eftirbragðið er langt og mjög gott. þetta er ekki ódýrt vín, af og frá, kostar 8.448 kr., en alveg þess virði að kaupa flösku fyrir gott tilefni. Þó þetta sé 2016 árgangur má alveg drekka það núna, en það er líka alveg hægt að geyma þetta vín í 5 ár í viðbót. Þó ég vilji yfirleitt hafa mjög þungt vín með mínu nautakjöti get ég alveg hiklaust séð fyrir mér Calera með góðu nauti eða lambi jafnt sem villibráð.