
Eftir allt of langan, kaldan og blautan vetur er gaman að láta hugann reika til sólríkari svæða! Fyrir okkur sem komast ekki til Tenerife verðum við að láta það duga að drekka góð spænsk vín. Uppáhalds vínsvæði Íslendinga á Spáni er án efa Rioja, enda gæðin í víninu þaðan nánast alltaf góð. Eitt vín sem er að vekja mikla athygli í ríkinu er Marqués de Murrieta, en það er flott og vel unnið vín sem gerir mann glaðan núna þegar daginn er farið að lengja.

Marqués de Murrieta, Reserva 2016 frá Rioja á Spáni er mjög opið í nefinu með mikla vanillu, epsresso kaffi og örlítinn rúsínu ilm. Bragðið er strax kraftmikið og margslungið og hefur vanillu, cedrus, kókos, dökkt súkkulaði, papriku, rúsínur og keim af svörtum kirsuberjum. Jafnvægið á milli tanníns og ávaxta er mjög gott. Eftirbragðið er mjög langt með áberandi alkóhól keim. Vertu ekki að geyma þetta vín, þó það gæti þroskast meira með tímanum er það svo gott núna að það er óþarfi að bíða lengur. Flott steikar vín og ég hlakka til að smakka þetta með grill mat í sumar. Verðið er meira en sanngjarnt eða aðeins 3.990 kr..